Færsluflokkur: Bloggar
3.8.2013 | 14:05
Ósk um stöðugleika
Óhætt er að segja að umræðan um kaup og kjör hinna vinnandi stétta sé svolítið í lausu lofti þessa dagana.
Úrskurður Kjararáðs á dögunum og samningar við heilbrigðisstéttir að undanförnu hafa valdið óróa og vakið upp væntingar hjá launafólki.
Sem ekki er skrítið.
Samt er það svo hjá meirihluta launastéttanna, að fólk gerir sér grein fyrir því að launahækkanir sem velt verður jafnóðum út í verðlagið er ekki lausn fyrir neinn.
Sjaldan hefur verið eins skýr áköllun um að komið verði á stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar. Stjórnmálamenn hafa lengst af stýrt efnahagsmálum okkar einsog dauðadrukknir togarasjómenn. Verði ekki breyting þar á munu langþreyttar launastéttir taka til við að beita þeim vopnum sem lítið hafa verið notuð upp á síðkastið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2012 | 11:59
ASÍ v/s stjórnvöld.
Fulltrúar stjórnvalda fara mikinn þessa dagana við að sannfæra þjóðina um að ASÍ sé höfuðóvinur hins vinnandi manns í þessu landi. Forseti ASÍ er sakaður um að ganga erinda vinnuveitenda og þung orð falla um tilgang verkalýðshreyfingarinnar.
Gylfi Arnbjörnsson hefur samt lengst af legið undir ámæli ýmissa, þará meðal fólks innan ASÍ, að hann hafi verið of hliðhollur stjórnvöldum. Að vera félagsmaður í Samfylkingunni er mönnum ekki til framdráttar þessa dagana. Nú hefur forsetinn þvegið af sér þann stimpil en þá er hann bara skammaður ótæpilega af fulltrúm stjórnarflokkanna.
Það er vandlifað í þeirri stöðu að vera forseti ASÍ á tímum "norrænnar velferðarstjórnar" í þessu landi.
Deila má um hvort ASÍ og stjórnvöld geti af einhverju viti spáð um þróun verðbólgu og fjárfestingu. Að hafa slíkar klausur inni í samningum við stjórnvöld og ætlast til að þær standist er mikil bjartsýni svo ekki sé meira sagt. Nær væri að fletta upp í spádómum Nostradamusar eða leita til völvu Vikunnar til að ráða í framtíðina.
En ég ætla að hrósa Gylfa og fleiri áhrifamönnun innan ASÍ fyrir að reyna það sem þeir geta til að standa vörð um almennu lífeyrissjóðina. Það virðist því miður vera býsna útbreidd skoðun að almennu lífeyrissjóðirnir séu einhverskonar varasjóður sem hægt sé að ganga í á krepputímum og ausa peningum úr í hin og þessi verkefni.
Tilgangur lífeyrissjóðanna er bundinn í lög þeirra og samþykktir. Þeirra megintilgangur er að greiða sjóðfélögum sínum eftirlaun, makalífeyri, barnalífeyri og örorkubætur. Þeir fara með og ávaxta iðgjöld sjóðfélaga sinna. Stjórnendur sjóðanna eru bundnir í báða skó um lámarksávöxtum fjárfestinga. Innistæður sjóðanna eru eign sjóðfélaga og skattlagning á þær er brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.
Ef tryggingarfræðileg staða þessara sjóða sem reiknuð er er út á hverju ári, stenst ekki, eru bætur og eftirlaun sjóðfélaga skert. Á sama tíma og stjórnvöld skattleggja almennu sjóðina er ekkert gert í vanda opinberu sjóðanna og skattgreiðendur, sem eru auðvitað einnig sjófélagar almennu sjóðnna líka, greiða stöðugt vaxandi halla af þeim.
Það er áberandi hvað stjórnmálamenn eru skeytingarlausir um þessi mál, enda er þeim hagur í því sem þiggjendum eftirlauna á kostnað skattgreiðanda að hafa mál með þessum hætti.
En almenningur sem á sitt undir í afkomu almennu sjóðanna styður baráttu forystumanna ASÍ heilshugar hvað varðar þessi mál. Stórfurðuleg ummæli stjórnmálamanna að undanförnu í garð verkalýðshreyfingarinnar og forseta ASÍ eru ámælisverð og grafa undan baráttu hins almenna launamanns til að leiðrétta kjör sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2010 | 10:07
Annarsflokks þegnar
Stjórnvöld virðast ætla vísvitandi að drepa niður möguleika Gæslunnar til að bjarga fólki úr sjávarháska. Ekki er hægt að leggja annan skilning í ummæli dómsmálaráðherra sem sagði engar leiðir færar að finna peninga til reksturs þyrlusveitarinnar.
Hvernig má vera að skorið sé svo blint niður að engu skipti hvaða þjónusta eigi í hlut. Sjófarendur eiga að sjá um sig sjálfir komi eitthvað upp á utan við 20 mílur frá landi. Nú má geta þess að ekki er eingöngu um íslenska sjómenn að ræða. Mikil umferð erlendra skipa er við landið og um okkar efnahagslögsögu. Eigum við að sætta okkur við að ekki sé hægt að koma fólki til hjálpar og skýra það út fyrir öðrum þjóðum sem í hlut eiga, að þegnar þeirra sem leið eiga um íslenska lögsögu séu þar á eigin ábyrgð.
Bloggarar virðast ekki gefa þessu máli mikinn gaum. Ræpan stendur úr þeim um icesave, júróvisjón og útrásarvíkinga og orðin býsna þunnur þrettándi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2010 | 08:17
Flotið sofandi að feigðarósi
Einsog undirritaður hefur bent á áður er björgunaþjónusta þyrlusveitar Gæslunnar stórlega skert vegna niðurskurðar stjórnvalda.
Sjómaður með kransæðastíflu beið læknishjálpar í 10 klukkustundir vegna þess að ekki var hægt að sækja hann út á sjó vegna fjárskorts. Eingöngu tilviljun að hann komst lifandi í land og undir læknishendur.
Sjómenn sjá sína sæng uppreidda í öryggismálum. Ekki verður hægt að tryggja þeim heilbrigðisþjónustu einsog öðrum landsmönnum vegna fjárskorts. Líf þeirra er minna metið en annarra landsmanna.
Stórfé var eytt í að leita bangsamömmu á Sléttu og Langanesi fyrir nokkrum dögum. Þá var hægt að senda út þyrlu í verkefni sem er kannske ekki alveg nógu vel rökstutt að þörf sé á.
Það var hinsvegar forgangsmál að afnema sjómannaafslátt og ráðast þannig að kjörum sjómanna, þeirra sömu manna og stjórnvöld neita nú um sömu réttindi til heilbrigðisþjónustu og aðrir landsmenn njóta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2010 | 02:30
Sjómenn í vanda
Í fréttaviðtali á RúV sagði Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar að tvær þyrlur yrðu sennilega í rekstri hjá gæslunni framvegis. Hann talaði um að skera þyrfti starfsemina niður um ein 45% einsog ekkert væri sjálfsagðara.
Tvær þyrlur í rekstri þýðir að þeir tímar koma sem aðeins önnur þyrlan er til taks. Samkvæmt öryggisreglum Gæslunnar er ekki farið lengra út yfir sjó en 20 mílur ef ein þyrla er á ferð.
Stór hluti togaraflotans og uppsjávarveiðiskipin eru að veiðum árið um kring á miðum þar sem veglengd er mun meiri en fyrrnefndar öryggisreglur heimila. Þá er auðvitað tölverð umferð farskipa bæði innlendra og erlendra um lösöguna. Allt kallar þetta á að á Íslandi sé rekin fullkomin þyrlubjörgunarsveit sem geti tekist á við hin erfiðustu verkefni.
Það er fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda og lítilsvirðing gagnvart lífi sjófarenda í lögsögu Íslands að láta stefna í það ástand sem vofir yfir.
Sökkvi t.d. togari með 27 manna áhöfn segjum 70 mílur frá landi er þeirra eina lífsvon að nærstatt skip geti bjargað þeim. Gæslan hefur ekki lengur burði til að gera það. Sjóslys verða stundum með svo skjótum hætti að ekki er sjálfgefið að menn komist í bátana. Lífsvon manna í köldum sjónum hér í norðurhöfum er ekki nema nokkrar klukkustundir þrátt fyrir flotbjörgunarbúninga.
Sem betur fer eru sjóslys ekki algeng við Íslandsstrendur. Sá fjöldi skipa sem sækir sjóinn við landið er vel útbúinn og stjórnað af hæfum mönnum. Því miður er það samt svo í ljósi reynslunnar að það er ekki spurning hvort - heldur hvenær slysin verða. Þá þarf þyrlusveitin að vera til taks.
Ætla stjórnvöld að segja almenningi að ekki sé til fé til að bjarga mannslífum á hafi úti við landið? Ætla þau að segja ættingjunum að því miður hafi ekki verið hægt að bjarga mönnum vegna fjárskorts?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2010 | 01:39
Sjómenn útundan
Alþingi samþykkti nýlega breytingar á skattalögum sem fela í sér að skattafsláttur sjómanna verður afnuminn í þrepum fram til 2014.
Ráðist hefur verið að kjörum sjómanna með því að afnema þennan skattafslátt sem þeir hafa haft í hálfa öld. Sjómenn þurfa því, einsog aðrir að taka á sig skattahækkanir og að auki sæta kjaraskerðingu vegna afnáms afsláttarins. Þetta gera stjórnvöld í skjóli þess að sjómannafslátturinn valdi mismun gagnvart öðrum stéttum.
Ekki er minnst á rískistryggðan lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, skattfrjálsa dagpeninga og ökutækjastyrki.
Í skattafrumvarpinu eru rangfærslur einsog að útgerðin leggi mönnum til hlífðarfatnað. Það er rangt. Sjómenn kaupa sjálfir sinn hlífðarfatnað og greiða sjálfir sitt fæði en útgerðin greiðir hlífðarfatapeninga og fæðispeninga sem eru að fullu skattlagðir sem laun.
Dagpeningar greiddir til annarra stétta vegna ferðalaga á vegum vinnuveitanda eru ekki skattlagðir. Ef gæta ætti jafnræðis ættu sjómenn að fá kr. 7950- á dag dregnar frá tekjum vegna fæðiskostnaðar og samskonar frádrátt vegna hlífðarfatakaupa.
Full rök eru því fyrir sérstökum skattafslætti til sjómanna.
Í athugasemdum með frumvarpinu er vitnað í tekjuþróun hjá sjómönnum miðað við tekjuþróun annarra stétta og tekið eitt ár, 2006 sem er auðvitað fáránlegt. Ekki er nefnt einu orði að fyrir 2006 hækkuðu laun annarra launamanna mun meira en tekjur sjómanna vegna t.d. sterkrar krónu. Þannig virðist gert í því að villa um fyrir almenningi til að réttlæta aðför að kjörum sjómanna.
Sjómenn fordæma aðgerðir stjórnvalda og munu sækja ígildi skattaafsláttarins eins fljótt og unnt er með öllum tiltækum ráðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.12.2009 | 16:44
Flýtur á meðan ekki sekkur
Öryggismál sjómanna
Ekki er hægt að láta hugann reika um öryggismál sjómanna öðruvísi en að furða sig á því skeytingarleysi sem virðist ríkja hjá opinberum aðilum í þessum málum. Hjá þjóð sem á allt sitt undir sjávarútvegi er þetta illskiljanlegt kæruleysi. Á miðunum umhverfis landið er árið um kring fjöldi fólks að störfum á þeim skipum sem sækja sjóinn og draga björg í bú. Varlega áætlað gæti þetta verið um tvö til þrjú þúsund manns. Helmingurinn á skipum sem eru langtímum saman á djúpmiðum.
Landhelgisgæslan mun hafa tvær þyrlur um þessar mundir, báðar staðsettar í Reykjavík Í sparnaðarskyni er aðeins ein áhöfn tiltæk í einu. Tilviljun er hvort þessar þyrlur eru báðar í flughæfu ástandi, en þegar farið er í lengri ferðir til björgunar er nauðsynlegt að senda tvær vélar og taka jafnvel eldsneyti á leiðinni. Allir vita að Gæslan á enga eldsneytisvél. Engin amerísk þyrluveit lengur tiltæk og við erum nánast á byrjunarreit í björgunarmálum sjómanna hvað þyrlusveitina varðar.
Við stöndum frammi fyrir því að þurfa stórefla þyrlu og skipakost Gæslunnar þannig að við getum verið færir um að bjarga fólki á þeim hafsvæðum sem okkur tilheyra a.m.k. og halda uppi lágmarkseftirliti með veiðum skipa innan lögsögunnar. Varnarliðið er á bak og burt og tæki Gæslunnar, þyrlur og skip ráða ekki við umfangsmiklar björgunaraðgerðir eins og fyrr greinir á norðuratlandshafi.
Næstu björgunarsveitir væru hugsanlega á Írlandi og Skotlandi eða í Noregi. Dönsku varðskipin eru að vísu á ferðinni hér öðru hverju með þyrlur um borð en ekki er hægt að reiða sig á tilvist þeirra þegar eithvað á bjátar. Mikil skipaumferð auk fiskiskipa er um hafið suðurundan Íslandi og við hvergi nærri í stakk búnir til að takast á við þann vanda sem skapast getur þegar skip lenda í nauðum.
Við eigum að hafa manndóm til kaupa þann búnað og tæki til sjóbjörgunar sem nauðsynlegur er hverri fiskveiðiþjóð. Það fólk sem vinnur á miðunum kring um landið á rétt á því að hugað sé í alvöru að því hvernig hægt sé að koma því til hjálpar ef illa fer. Þær mínútur sem skilja á milli lífs og dauða í landi líða oftast út á sjó án þess að hjálp berist. Eðli málsins samkvæmt tekur alltaf tíma að komast á slysstað en það má alveg örugglega stytta þann tíma verulega með því að bæta tækjakost Gæslunnar Ekki er raunhæft að tala um "þyrlu í hverjum landsfjórðungi" einsog stundum hefur verið talað um. Það er hinsvegar ekki spurning að staðsetja tvær þyrlur á Akureyri og tvær í Reykjavík. Einnig verður að vera tiltæk eldsneytisvél.
Skipakostur Gæslunnar er annar kapítuli útaf fyrir sig og mætti halda að það væri stefna stjórnvalda að leggja varðskip hreinlega niður. Þeir ráðherrar sem hafa farið með þessi málefni að undanförnu virðast hafa allan vilja til að gera það. Ekki þar að fjölyrða um það öryggi sem varðskipin geta veitt fiskiskipaflotanum, en til þess að svo megi verða, þurfa þau að vera haffær, með þjálfaðar áhafnir og á sjó í námunda við fiskveiðiflotann hverju sinni.
Undanfarin misseri hefur aðeins verið eitt skip á sjó í einu sem er hreinlega til skammar með tilliti til okkar stóru fiskveiðilögsögu. Til að gæta öryggis á höfunum umhverfis landið þurfum við að hafa fleiri og stærri skip, minnst tvö sem geta haft þyrlu og lækni um borð. Einhverjir þingmenn hafa ýjað að því að réttast væri að reyna að selja nýja varðskipið Þór sem verið hefur í smíðum í Chíle. Þetta fólk er gersamlega veruleikafirrt.
Ég skammast mín fyrir hönd íslendinga vegna ástands þessara mála. Hér virðist gamla máltækið eiga virkilega vel við, "flýtur á meðan ekki sekkur" og gamli hugsunarhátturinn, "það reddast einhvernveginn".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2009 | 21:48
Sjómannaafsláttur? - já
Sjómannaafsláttur? - Já
Stjórnvöld íhuga að leggja skattafslátt til sjómanna niður. Þessi skattafsláttur, sjómannaafslátturinn hefur verið við lýði í einhverrri mynd síðan 1954, frá skattkerfisbreytingunni 1990, ákveðin upphæð fyrir hvern dag á sjó samkvæmt lögskráningu.
Skoðanir hafa oft verið skiptar um hvort sjómenn eigi þessi skattfríðindi skilið. Á móti hafa þeir talað hæst sem sitja á rassgatinu í vinnu hjá því opinbera með verðtryggðan lífeyrissjóð, allt á kostnað skattgreiðenda. Þar ber fyrst til að nefna háskólaprófessora, þingmenn og ráðherra sem hafa meira og minna sjálftökurétt um eigin kjör.
Sjómenn eru nokkuð sammála um mikilvægi þessa afsláttar. Í stéttinni er almennt litið á sjómannaafsláttinn sem viðurkenningu á mikilvægi þessara starfa. Einnig má nefna hann áhættuþóknun eða fjarvistaálag, hvorutveggja með réttu. Sjómenn á íslandsmiðum stunda vinnu sína sannarlega á hafsvæði sem talið er eitt það hættulegasta í heimi hvað varðar veður og sjólag.
Reyndar virðast stjórnvöld ekki vera þeirrar skoðunar að sjómenn séu í eitthvað meiri hættu en aðrir og eru að leggja nánast niður þá starfsemi Landhelgisgæslunnar sem hefur haft öryggismál sjómanna á sinni könnu.
Skipin hafa vissulega þróast til betri vegar og aðbúnaður allur til fyrirmyndar í nýrri skipunum. Öryggisbúnaður er yfirleitt til staðar og kunnáttu sjómanna til að nota hann hefur fleygt fram, þökk sé Slysavarnarskóla sjómanna. Stór hluti flotans er hinsvegar orðinn gamall og aðbúnaðurinn því nokkuð misjafn í samræmi við það.
Þegar menn er vistaðir í fangelsi eru þeir hafðir í klefa og samkvæmt reglugerð þarf sú vistarvera að uppfylla lágmarksskilyrði um stærð gólfflatar og lofthæð. Þá skal hver sakamaður vera útaf fyrir sig í klefa. Þegar komið er um borð í íslenskt fiskiskip er engar reglugerðir að þvælast fyrir og algengt að menn séu tveir eða jafnvel fleiri saman í klefa með tveggja fermetra gólfrými og lofthæð innan við tvo metra í veiðiferðum sem taka jafnvel mánuð eða meira.
Ekki svo að skilja að sjómenn séu yfirleitt að væla útaf þessum hlutum en augljóst er að persónulegt rými er af skornum skammti úti á sjó og hver með nefið ofan í annars koppi.
Fólk sem unnið hefur við virkjunarframkvæmdir á hálendi Íslands hefur fengið greitt fjarvistaálag án athugasemda. Þegar ríkisstarfsmenn og aðrir opinberir starfsmenn fara erinda sinna úr höfuðborginni út á land ellegar til útlanda eru þeir á skattfrjálsum dagpeningum sem eiga að mæta útgjöldum sem þeir verða fyrir starfa sinna vegna. Ríkis og borgarstarfsmenn hafa aðgang að ríkisreknum mötuneytum sem selja máltíðir á kostnaðarverði. Er greiddur skattur af slíkum hlunnindum?
Sjómenn fá greidda svokallaða fæðispeninga frá útgerð skipsins, það er hluti af þeirra kjörum og er greiddur fullur skattur af þeim. Það sem útaf stendur greiða sjómenn úr eigin vasa og fæðispeningar duga sjaldnast fyrir öllum fæðiskostnaðinum. Síðan fara stórar upphæðir til kaupa á hlífðarfatnaði, símakostnaði, internetsambandi og fleiri liðum. Sem dæmi má nefna að slíkur kostnaður á venjulegum frystitogara getur verið tölvert á annað hundrað þúsund krónur á einu ári. Fyrir að fá að stunda sjó.
Þetta bætist í rauninni við heimilsútgjöldin hjá hverjum og einum og er kostnaðurinn við það að fá að vera á sjó. Sjómenn fara stóran hluta ársins á mis við allskonar þjónustu sem almenningi stendur til boða í landi og þarf ekki að útskýra það. Þá er mjög algengt að konur sjómanna komist ekki frá heimili sínu af augljósum ástæðum út á vinnumarkaðinn. Fyrirvinna er því oft aðeins ein á heimilum hinna yngri í sjómannastétt.
Einsog rakið hefur verið hér að framan er ekki allt sem sýnist og sjómenn hafa upp til hópa ekki þær tekjur sem fjölmiðlar ætla þeim gjarnan. Vinsælt fréttaefni er að slá upp fréttum þar sem greint er frá einum mettúr á frystitogara og þess getið að hásetahluturinn hafi verið svo og svo há upphæð.
Fráleitt er að ætla slíkar tekjur á hvert skip í flotanum og meðaltekjur sjómanna eru aðeins lítillega yfir landsmeðaltali samkvæmt upplýsingum skattstofunnar Segja má að frá því gengið byrjaði að falla í ársbyrjun 2008 hafi laun sjómanna hækkað sem svarar gengisfallinu og hafi kannske sjaldan verið hærri í krónutölu en á móti kemur að árin þar á undan voru þeim mjög erfið vegna hágengis krónunnar.
Það er morgunljóst að sjómenn telja sjómannaafsláttinn hluta af sínum kjörum með réttu. Geri stjórnvöld alvöru úr því að taka hann af okkur er ljóst að við munum sækja ígildi hans á hendur útgerðinni. Ef ég þekki útgerðarmenn rétt mun það ekki gerast án átaka. Þetta mál er svo stórt og sjómannaafslátturinn heilagur í augum sjómanna. Það mun ekki þurfa að eggja menn til stórræðanna ef stjórnvöld hefja þennan leik.
Gústi Mar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.12.2009 | 22:43
Sjóferðabænin
Sjóferðabænin
Íslendingar hafa stundað sjómennsku á hafinu umhverfis landið svo lengi sem sögur fara af landi og þjóð. Sjávarfang var og er nokkurnveginn forsenda þess að lifa af á þessum útnára og þarf ekki að fjölyrða um það.
Allt frá landnámsöld og framundir miðja tuttugustu öld fóru þeir Guð almáttugur og sonur hans Jesús Kristur með öryggismál sjómanna. Ekki ætla ég að dæma hvernig það gekk til, en víst er að um það eru skiptar skoðanir. Almennt var þó álitið að það væri nokkurskonar náttúrulögmál að sjómenn færust og eingöngu Guðs mildi ef einhverjir komust af.
Fiskiskip fyrri tíma voru lítil og aðbúnaður skipverja á þessum opnu fleytum ekki upp á marga fiska. Sjóslys voru tíð og oft urðu mannskaðar þar sem jafnvel margir tugir sjómanna fórust sama daginn þrátt fyrir að hafa signt sig og haft yfir sjóferðabænina samviskusamlega yfir áður en lagt var í´ann í Jesú nafni.
Sjóferðabænin reyndist semsagt ekki það haldreipi sem dugði þegar í harðbakkann sló. Þar við bættist að engin voru veðurskeytin en nef skipstjórans eina tækið til að skynja veðrabrigði og reyndist alls ekki óskeikult.
Þegar kom fram á tuttugustu öldina fór að örla á þróun í hugsun þeirri að sjóslys væru ekki náttúrlögmál og hægt væri að gera ýmislegt til bjargar þegar illa færi. Fyrst komu tæki til að bjarga mönnum úr skipum sem strönduðu nálægt landi, en seinna upp úr miðri öldinni fara að koma gúmbjörgunarbátar um borð í skipin. Þegar svo flotbjörgunarbúningar koma til sögunnar á níunda áratugnum er loks hægt að tala um að sjómenn eigi raunhæfa möguleika til að komast af þegar slys verða langt frá landi.
Landhelgisgæslan hefur einsog menn vita verið sá aðili sem hefur hvað mest komið að björgun sjómanna á hafi úti og hefur oft unnið afrek á þeim sviðum við slæmar aðstæður á litlum og vanbúnum skipum. Seinni árin hefur einnig verið reynt að halda úti þyrlusveit í þessu skyni en fjárskortur háð starfseminni. Þyrlusveitir Gæslunnar hafa þrátt fyrir það unnið björgunarafrek sem aldrei munu gleymast og farið langt út fyrir þau öryggismörk sem sett eru þeim til varnar.
Á meðan herinn var á Keflavíkurflugvelli treystu stjórnvöld að mestu á tilvist þyrlusveitar hersins til björgunar sjóhröktum og gerðu enga tilraun til að verða sjálfbjarga á því sviði. Þegar blessaður Kaninn fór stóðu menn steinhissa og klóruðu sér í hnakkanum. Hvað gera bændur nú! Jú, lausnin var að taka á leigu þyrlur og láta sem allt væri í himnalagi. Fjandans leigan er bara svo há að við höfum ekki efni á að leigja þær lengur. Nærtækt að kenna svokallaðri Kreppu um núna.
Skítt með sjómennina, þeir hljóta bara að geta reddað sér sjálfir. Höfum ekki efni á að halda úti einhverri fokking þyrlusveit sem kostar hellings pening. Höfum reyndar heldur ekki efni á að halda úti skipum til að líta eftir landhelginni og þyrftum helst að selja nýja varðskipið Þór sem við vorum að láta smíða úti í Chíle. Ægir og Týr duga alveg þó þau séu að verða 40 ára gömul, enda aldrei nema annað þeirra á sjó í einu.
Á miðunum umhverfis landið vinna þúsundir sjómanna árið um kring á hafsvæði sem talið er eitt það hættulegasta í veröldinni hvað varðar veður og sjólag. Þyrlusveitin er lömuð og eitt varðskip siglir að jafnaði um landhelgi sem þyrfti ein fjögur skip til að líta sómasamlega eftir og sinna öryggi sjófarenda. Þetta er til háborinnar skammar fyrir þjóð sem á mestallt sitt undir sjávarfangi.
Kannske erum við að færast á ný aftur til þeirra tíma sem þeir himnafeðgar fóru með öryggismálin. Brátt verður helgistund í hverju skipi áður endum er sleppt og sjóferðabænin tekin upp aftur og róið í Jesú nafni. Með fullri virðingu fyrir þeim feðgum tel ég öryggismálum sjómanna betur komið með því að efla landhelgisgæsluna verulega. Ef það verður ekki gert segi ég einsog ágætur klerkur í skáldsögu Jóns Thoroddsen, Manni og Konu. Nú held ég það sé kominn tími til að biðja Guð að hjálpa sér".
Gústi Mar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2009 | 16:11
Vonbrigði
Það er með ólíkindum hvernig búið er að tefja seðlabankafrumvarpið. Allt frá hruni bankanna s.l. haust hefur verið uppi krafa um að skipta út fólki í ábyrgaðarstöðum í seðlabanka og fjármálaeftirliti. Stjórnendur í þessum stofnunum njóta einfaldlega ekki lengur trausts í þjóðfélaginu. Forystumenn sjálfstæðisflokksins bera fulla ábyrgð á aðgerðarleysinu í þessum efnum. Í ljós kom að formaður þeirra Geir H. Haarde hefur ekki raunverulegt umboð til að taka ákvarðanir sem snerta "þeirra" fólk í fyrrnefndum stofnunum. Davíð Oddson stjórnar ennþá þessum flokki bak við tjöldin. Hefði Geir borið gæfu til að gera breytingar sl. haust, hefði núverandi ástand ekki komið upp. Þá sæti að öllum líkindum stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðismanna enn með sinn sterka meirihluta á alþingi.
Heift sjálfstæðismanna yfir stjórnarslitunum er mikil og þeir hafa gert allt sem þeim er unnt til að tefja fyrir seðlabankafrumvarpinu og fleiri málum á þinginu. Í því ljósi er frekar hlálegt að fylgjast með þeim koma í röðum upp í pontu þinginu og æpa einsog móðursjúkar kellíngar út af fundarstjórn forseta. Fyrir venjulegt fólk er reyndar erfitt að skilja kokhreystina í sjálfstæðismönnum yfirleitt í ljósi þeirrar staðreyndar að þeir sváfu á verðinum og skáru hrúta þar til þjóðarskútan sigldi upp í fjöru. Mér þætti eðlilegra að þeir sýndu meiri hógværð,að maður tali nú ekki um að þeir skömmuðust sín svolítið.
Ætlunin mun vera að tefla flestum þessum görpum fram að nýju í komandi þingkosningum. Ég skora á landsmenn að sýna nú í verki að við erum ekki búin að gleyma ábyrgð þeirra á efnahagsóförum okkar íslendinga og láta verkin tala í prófkjörunum sem framundan eru.
Höskuldur Þórhallsson er maður sem enginn botnar í þessa dagana og ætti að hugleiða vandlega á hvaða leið hann er. Mér er til efs að hann hafi gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Tilefnið er títtnefnd skýrsla og ýmsir hafa leitt að því getum að Höskuldur hafi misskilið efni hennar eða ekki skilið til hlítar hvað rætt var um, enda fyrirlesturinn á framandi tungumáli. Hvernig sem það er vaxið þá er þessi afleikur hans einsog sniðinn að hernaðaráætlun sjálfstæðismanna, sem sé, að tefja þetta mál einsog framast er unnt.
Seðlabankalög á dagskrá þingsins í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ágúst Marinósson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar