Sjómannaafsláttur? - já

 

Sjómannaafsláttur? - Já

    Stjórnvöld íhuga að leggja skattafslátt til sjómanna niður.  Þessi skattafsláttur, sjómannaafslátturinn hefur verið við lýði í einhverrri mynd síðan 1954, frá skattkerfisbreytingunni 1990, ákveðin upphæð fyrir hvern dag á sjó samkvæmt lögskráningu.

     Skoðanir hafa oft verið skiptar um hvort sjómenn eigi þessi skattfríðindi skilið.  Á móti hafa þeir talað hæst sem sitja á rassgatinu í vinnu hjá því opinbera með verðtryggðan lífeyrissjóð, allt á kostnað skattgreiðenda.  Þar ber fyrst til að nefna háskólaprófessora, þingmenn og ráðherra sem hafa meira og minna sjálftökurétt um eigin kjör.

    Sjómenn eru nokkuð sammála um mikilvægi þessa afsláttar.  Í stéttinni er almennt litið á sjómannaafsláttinn sem viðurkenningu á mikilvægi þessara starfa.  Einnig má nefna hann áhættuþóknun eða fjarvistaálag, hvorutveggja með réttu.  Sjómenn á íslandsmiðum stunda vinnu sína sannarlega á hafsvæði sem talið er eitt það hættulegasta í heimi hvað varðar veður og sjólag.

    Reyndar virðast stjórnvöld ekki vera þeirrar skoðunar að sjómenn séu í eitthvað meiri hættu en aðrir og eru að leggja nánast niður þá starfsemi Landhelgisgæslunnar sem hefur haft öryggismál sjómanna á sinni könnu.

    Skipin hafa vissulega þróast til betri vegar og aðbúnaður allur til fyrirmyndar í nýrri skipunum.  Öryggisbúnaður er yfirleitt til staðar og kunnáttu sjómanna til að nota hann hefur fleygt fram, þökk sé Slysavarnarskóla sjómanna.  Stór hluti flotans er hinsvegar orðinn gamall og aðbúnaðurinn því nokkuð misjafn í samræmi við það.

     Þegar menn er vistaðir í fangelsi eru þeir hafðir í klefa og samkvæmt reglugerð þarf sú vistarvera að uppfylla lágmarksskilyrði um stærð gólfflatar og lofthæð.  Þá skal hver sakamaður vera útaf fyrir sig í klefa.  Þegar komið er um borð í íslenskt fiskiskip er engar reglugerðir að þvælast fyrir og algengt að menn séu tveir eða jafnvel fleiri saman í klefa með tveggja fermetra gólfrými og lofthæð innan við tvo metra í veiðiferðum sem taka jafnvel   mánuð eða meira.

     Ekki svo að skilja að sjómenn séu yfirleitt að væla útaf þessum hlutum en augljóst er að persónulegt rými er af skornum skammti úti á sjó og hver með nefið ofan í annars koppi.

    Fólk sem unnið hefur við virkjunarframkvæmdir á hálendi Íslands hefur fengið greitt fjarvistaálag án athugasemda.  Þegar ríkisstarfsmenn og aðrir opinberir starfsmenn fara erinda sinna úr höfuðborginni út á land ellegar til útlanda eru þeir á skattfrjálsum dagpeningum sem eiga að mæta útgjöldum sem þeir verða fyrir starfa sinna vegna.  Ríkis og borgarstarfsmenn hafa aðgang að ríkisreknum mötuneytum sem selja máltíðir á kostnaðarverði.  Er greiddur skattur af slíkum hlunnindum?

     Sjómenn fá greidda svokallaða fæðispeninga frá útgerð skipsins, það er hluti af þeirra kjörum og er greiddur fullur skattur af þeim.  Það sem útaf stendur greiða sjómenn úr eigin vasa og fæðispeningar duga sjaldnast fyrir öllum fæðiskostnaðinum.  Síðan fara stórar upphæðir til kaupa á hlífðarfatnaði, símakostnaði, internetsambandi og fleiri liðum.  Sem dæmi má nefna að slíkur kostnaður á venjulegum frystitogara getur verið tölvert á annað hundrað þúsund krónur á einu ári.  Fyrir að fá að stunda sjó.

        Þetta bætist í rauninni við heimilsútgjöldin hjá hverjum og einum og er kostnaðurinn við það að fá að vera á sjó.  Sjómenn fara stóran hluta ársins á mis við allskonar þjónustu sem almenningi stendur til boða í landi og þarf ekki að útskýra það.  Þá er mjög algengt að konur sjómanna komist ekki frá heimili sínu af augljósum ástæðum út á vinnumarkaðinn.  Fyrirvinna er því oft aðeins ein á heimilum hinna yngri í sjómannastétt.   

      Einsog rakið hefur verið hér að framan er ekki allt sem sýnist og sjómenn hafa upp til hópa ekki þær tekjur sem fjölmiðlar ætla þeim gjarnan.  Vinsælt fréttaefni er að slá upp fréttum þar sem greint er frá einum mettúr á frystitogara og þess getið að hásetahluturinn hafi verið svo og svo há upphæð. 

   Fráleitt er að ætla slíkar tekjur á hvert skip í flotanum og meðaltekjur sjómanna eru aðeins lítillega yfir landsmeðaltali samkvæmt upplýsingum skattstofunnar  Segja má að frá því gengið byrjaði að falla í ársbyrjun 2008 hafi laun sjómanna hækkað sem svarar gengisfallinu og hafi kannske sjaldan verið hærri í krónutölu en á móti kemur að árin þar á undan voru þeim mjög erfið vegna hágengis krónunnar.

   Það er morgunljóst að sjómenn telja sjómannaafsláttinn hluta af sínum kjörum með réttu.  Geri stjórnvöld alvöru úr því að taka hann af okkur er ljóst að við munum sækja ígildi hans á hendur útgerðinni.  Ef ég þekki útgerðarmenn rétt mun það ekki gerast án átaka.  Þetta mál er svo stórt og sjómannaafslátturinn heilagur í augum sjómanna.  Það mun ekki þurfa að eggja menn til stórræðanna ef stjórnvöld hefja þennan leik.

Gústi Mar.

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ágúst!

 

Mér finnst rök þín um að sjómannaafslátturinn hafi verið við lýði frá 1954 léttvæg.  Lög koma- og fara.  Skattar reyndar eru þeirrar ónátturu gæddir að þeir bara settir á, en yfirleitt er ekki áhugi fyrir því að afnema þá.

 

Nú er ég ekki hjá hinu opinbera og tilheyri enn síður þeim starfsstéttum sem þú telur upp í þessari færslu, en ég hef samt skoðun á þessu málefni.

 

Ég sé ekki með nokkru móti að hið opinbera eigi að hygla einni stétt umfram aðra. Þurfi að greiða fjarvistarálag nú eða áhættuþóknun þá er það sjálfsagt – en um slíkt verður að sjálfsögðu að semja við vinnuveitendur en ekki ríkisvaldið. 

 

Ég rétt renndi yfir lagasafnið á leitarvél Alþingis, og sá þar ekki minnst einu orði á vistarverur sjómanna.  Hins vegar er til minnisblað um þessi efni frá árinu 2004 – en ekkert virðist hafa gerst í þeim efnum, en þetta er nú útúrdúr.  Þá er einnig fjallað um vistarverur og svefnklefa í skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis frá nóvember 2006 um Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 2005 og 2006.  Þá er einnig fjallað um hvernig vistarverur skipverja eigi að vera, þ.á.m. stærð klefana í viðauka við reglugerð nr. 122/2004.  Er þar farið ýtarlega yfir gólfrými í hverjum klefa miðað við fjölda einstaklinga í þeim.  En að bera saman fanga, sem dvelja í fangelsi þvert gegn vilja sínum og sjómenn sem dvelja um borð í fiskiskipum tekur engu tali.

 

Þú ræðir um dagpeninga ríkisstarfsmanna.  Þá er til þess að taka að starfsstöð þeirra er í Reykjavík, þurfi þeir að dvelja annarsstaðar, þá fá þeir greitt fyrir það.  Starfsstöð sjómanna er um borð í farinu sjálfu, þar sem það er statt í það og það skiptið.  Nefna ber í þessu sambandi, að sé mötuneyti niðurgreitt ber að greiða af því skatt, þ.e. af mismuni þeim er myndast miðað við “eðlilegt verð” enda um hlunnindi að ræða.

 

Þá að fæðispeningum.  Auðvitað er greiddur skattur af fæðispeningum, enda ákveðin hlunnindi, rétt eins og hjá þeim er snæða af gnægtarborðum ríkismötuneytana.  Ef mig misminnir ekki þá fá sjómenn fatapeninga sem þeir semja um í sínum kjarasamningum.  Dugi þeir fjármunir ekki til kaupa á hlífðarfatnaði, þá er ekki við neinn að sakast nema þá samninganefnd sjómanna.

 

Þá að réttinum að fá að stunda sjó.  Það fara verulegar fjárhæðir hjá fólki “í landi” i það að koma sér í og úr vinnu.  Það er hins vegar sjálfsagður kostnaður, sem sjómenn verða ekki fyrir. Fólk í landi greiðir líka síma, þ.m.t. farsíma, og internet.  Ég einfaldlega sé ekki hvað þetta komi málinu við, enda velja menn starf við sitt hæfi, með þeim kostum og göllum sem því fylgja.

 

Kostirnir hljóta að vera umtalsvert fleiri og gefa betur í aðra hönd en gallarnir, ef hægt er að hafa eiginkonurnar “heimavinnandi.”  Ef þetta er nauðsynlegt, þá er það ofar mínum skilningi hvernig einstæðar mæður komast af – án stuðnings.

 

Ég tek heilshugar undir hjá þér að ekki er allt sem sýnist í þessum efnum, og eflaust ertu ekki sammála mér, en þetta er nú samt mín skoðun.

 

Að síðustu tel ég rétt að nefna, að ég er hjartanlega sammála þér með launin og svo meðallaunin.  Það er ekkert rætt um meðallaunin, enda vont fréttaefni.  Hvað varðar þá afstöðu sjómanna að þeir telji sjómannaafsláttinn hluta af kjörum sínum, þá segi ég að þeim megi breyta.  Rétt eins og öðrum sköttum og gjöldum sem hið opinbera hlutast til með.

Gamall sjómaður (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 15:44

2 identicon

Þakka fyrir málefnalega gagnrýni frá gömlum sjómanni.  Auðvitað breytir hún í engu skoðun minni. 

 Aðeins að nefna með klefastærðina og samanburðinn við fangaklefana.  Það er landlæg skoðun fólks sem lítið þekkir til aðbúnaðar sjómanna um borð í hinum ýmsu skipum, að sjómenn búi í nokkurs konar fljótandi hótelum með öllum hugsanlegum þægindum.  Annars var þetta nú sett fram svona meira til gamans.

Fatapeningar sjómanna eru kannske svona 1/3 hluti af kostnaði við hlífðarföt fyrir utan vinnuflotgallakaup en slíkir búningar kosta marga tugi þúsunda.  Menn sem vinna á trolldekki á togara kaupa einn svoleiðis galla á ári.

Gervihnattakúlur eru komnar um borð í fjölda skipa.  Internetsamband um borð er eitthvað sem gefur mikla möguleika á samskiptum við fjölskylduna í landi.  Útgerðin greiðir búnaðinn og uppsetninguna en rukkar áhöfnina fyrir ákveðið hlutfall af gagnamagni.  Sjómenn einsog aðrir eru flestir með internettengingu í landi og greiða því tvöfalt gjald á við marga.  Jafnvel þótt menn vildu sniðganga þessa þjónustu um borð verða þeir að greiða fyrir hana engu að síður.

Sambúðaraðilar sem eru samskattaðir og með svipaðar tekjur njóta mikils hagræðis hjá skattyfirvöldum.  Það þarf ekki að rökstyðja.  Auk heldur er það frekar gamaldags skoðun að "betra" sé að hafa konuna heima við.  Nútímafólk vill einfaldlega vera frjálst að því að vinna þegar því hentar.

Ég er svo sammála því sjónarmiði að maður velur sjálfur að vera á sjó.  Ég hef unnið við sjómennsku í 30 ár og líkar bara ágætlega.  Ég er hinsvegar á móti hverskonar breytingum sem rýra kjör sjómanna og er ákveðinn í að standa vörð um okkar hagsmuni.  Reynslan segir okkur að útgerðarmenn eru gríðarlega erfiðir við að eiga í samningum.  Sem dæmi má nefna lífeyrimál sjómanna sem enduðu í síðustu samningum með því að skiptaprósenta var skert um þrjú prósent svo takast mætti að fá framlag í lífeyrissjóð til jafns við aðrar stéttir.  Að standa frammi fyrir því að sækja ígildi sjómannafsláttar á hendur útgerðinni er kvíðvænlegt svo ekki sé meira sagt.  En miðað við þær skoðanir sjómanna sem maður heyrir þessa dagana er ljóst að mikill hugur er í mönnum að verja sinn rétt.

Ágúst Marinósson (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 21:36

3 identicon

Sæll Ágúst.

Ég veit vel að klefarnir eru misstórir, eða öllu heldur mislitlir.  Ég var í nokkur ár í tveggja manna klefa, og þar náði gólfplássið ekki fermetra, engin gluggi og takmörkuð loftræsting. Ég hins vegar gerði mér þetta að góðu, var þarna vegna þess að ég valdi það.  Ég hef líka verið í klefa þar sem allt er til alls, ég valdi líka að vera þar.  Þannig að við erum sammála um að þetta er upp og ofan í flotanum, en á endanum er það maður sjálfur sem velur eða hafnar skipsplássi, ef maður telur að aðstæðurnar séu ekki mönnum bjóðandi.  Þetta eru því ekki rök fyrir því að viðhalda sjómannaafslætti.

Fatapeningar koma sjómannaafslætti bara ekki við, heldur káfar það uppá útgerðarmenn - og enn og aftur, samninganefnd sjómanna. Ég sé bara ekki rökin fyrir því að aðrir borgarar landsins eigi að niðurgreiða sjómannsstarfið.

Þá að internetkostnaðinum.  Einhvern veginn finnst mér afkáralegt að útgerðin þvingi þá sjómenn sem ekki kjósa að greiða/nota internetið um borð um greiðslu.  Þetta með að greiða tvöfallda internetáskrift kemur öðrum borgurum bara ekki við, og getur því ekki staðið í beinu sambandi við það að halda skuli sjómannaafslætti við lýði.  Eins og áður hefur komið fram þá er þetta starfsval sem hver og einn velur, og er þá væntanlega búinn að vega kosti þess og galla áður en haldið er af stað útí sjómennsku.

Sambúðaraðilar geta látið samskatta sig ef þeir vilja.  Það hins vegar skiptir máli hverjar þær tekjur eru sem viðkomandi einstaklingar hafa.  Ef báðir aðilar eru fyrir ofan mörk - þá skiptir þetta engu máli.  Í því dæmi sem ég held að þú sért að vísa í, þá er konan heima og þá getur sjómaðurinn vissulega haft skattalegt hagræði af því.  Þú áttar þig á því að þetta gildir líka um sjómenn.

Skattar eru í greiðsla í formi peninga, sem vanalega er innheimt sem hlutfall af launum að teknu tilliti til persónuafsláttar sem allir njóta.  Það er einkennilegt að taka einn hóp manna út úr þessari jöfnu og gera þeim hærra undir höfði.

Með jólakveðju

Gamall sjómaður (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 00:20

4 identicon

Sæll Ágúst.

Mér sýnist að löggjafinn sé sammála mér með sjómannaafsláttinn, og ætli sér að afnema hann í þrepum.  Að öllu óbreyttu verður hann með öllu aflagður 1. janúar 2014.

Gamall sjómaður (IP-tala skráð) 29.12.2009 kl. 14:52

5 Smámynd: Ágúst Marinósson

Vafalaust fara stjórnvöld sínu fram með sjómannaafsláttinn og afnema hann.  Ekkert sem ég get gert í því svona í augnablikinu.  Sjómannasamtökin eiga hinsvegar eftir að ákveða sín viðbrögð við þessu.  Ekki þykir mér ólíklegt að menn reyni að ná vopnum sínum fljótlega og draga fram í dagsljósið gömul deilumál einsog kostnaðarhlutdeild sjómanna í olíukostnaði sem legið hefur hálfvegis í þagnargildi í mörg ár.  Þar komu stjórnvöld á sínum tíma með íhlutun í kjarasamninga sjómanna.  Þeirri lagasetningu var mótmælt kröftuglega þá og oft síðan.  Verkföll sjómanna sem stofnað var til hér á árum áður vegna þess máls og annarrra voru oftast blásin af með lagassetningu eftir pöntun útgerðarmanna.

Þá munu sjómenn eiga margt vantalað við stjórnvöld vegna öryggismála sjóamanna en starfsemi Gæslunnar stefnir í þrot einsog málum er háttað núna.  Þurfi áhöfn skips á djúpmiðum að yfirgefa skip sitt er með öllu óvíst hvort hægt er að sækja kallana á þyrlu.  Sennilega þurfa þeir að róa í land.

Ef stjórnvöld telja málum best borgið með því að efna til ófriðar við sjómenn þá munum við ekki láta okkar eftir liggja.  Illt er að eggja óbilgjarnan.

Ágúst Marinósson, 29.12.2009 kl. 16:16

6 identicon

Sæll Ágúst

Ég reikna fastlega með því að sjómenn nái  vopnum sínum, og beini þeim í réttar áttir.  Þ.e í átt að sínum vinnuveitendum.  Hvað varðar öryggismálin, þá er ég hjartanlega sammála þér í þeim efnum, og vísa til þeirra skrifa sem fram koma í nýjustu færslu þinni.

En gangi ykkur vel í baráttunni við LÍÚ, sú barátta verður væntanlega á brattann að sækja – en hafi einhvern tímann verið stjórnarherrar við stjórnvölinn sem draga ekki taum LÍÚ, þá er það núna.  Að þessu sögðu óska ég þér gleðilegs nýs árs.

Kveðja,

Gamall sjómaður (IP-tala skráð) 29.12.2009 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ágúst Marinósson

Höfundur

Ágúst Marinósson
Ágúst Marinósson
Sjómaður á frystitogaranum Málmey SK1 frá Sauðárkróki
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband